06 ágú

Hringferð með allt í botni

Við fjölskyldan leigðum okkur fellihýsi hjá Fellihýsaleigu Pésa á Selfossi í tvær vikur og ákváðum að keyra hringin í kringum landið. Það er svo sem ekki frá sögu færandi. Nema það að sumum fannst þetta vera meira áhættuatriði en ævintýri þar sem við erum á rafmagnsbíl, en annað kom svo á daginn.

Áður en við lögðum af stað

Við vorum búin að reikna það út að við þyrftum að halda bílnum í 360 Wh/km. Þá værum við að komast 200 km á fullri hleðslu. Ferðalagið gekk vonum framar og við náðum að halda bílnum í 316 Wh/km að meðaltali. Það sem hjálpaði mest í þessu var að tæma vatnstankinn í fellihýsinu. Við fengum hann sem sagt fullann og eftir smá Gúgl kom í ljós að hann gat verið um 50 gallon (189 lítrar) á hýsinu sem við leigðum. Það munar um það.

Þetta var 10feta Fleetwood Santa Fe og eigin þyngd þess var 860kg og við settu 50kg af farangri í hýsið. Það var að undanskyldu gasinu (10kg) þannig við vorum allavegana með 10kg of mikið þegar ferðalagið byrjaði.

Við vildum líka hafa með okkur 4 hjól og ákváðum að hafa þau á þakinu á bílnum. Fengum okkur Tesla þverboga (kosta 69.900) og notuðum Thule ProRide hjólafestingar sem við áttum fyrir. Festingarnar eru festar með T Track boltafestingum sem við fengum í Stillingu. Þverbogarnir hafa þyngdartakmarkanir uppá 70kg og við reiknuðum að við vorum í 72,5kg. Þannig þarna vorum við líka með 2,5kg of mikið á þakinu.

Dagur 1: Sækja, pakka og fyrsta nóttin (186 km)

Keyrðum á Selfoss og til baka til að sækja fellihýsið. Komum öllum farangri fyrir og lögðum af stað. Fundum strax að þetta hýsi var heldur þungt og vorum yfir 500 Wh/km. Sáum ekki fram á að þetta ferðalag væri að fara að gang eins og við ætluðum en ákváðum að gista fyrstu nóttina á Hraunborgum.

Allir tilbúnir að leggja í hann

Dagar 2 – 4: Selvík að njóta (22 km + 278 km)

Góða veðrið hélt áfram að vera á suðurlandinu og við ákváðum að færa okkur yfir í Selvík þar sem vinafólk okkar var. Vorum þar með tjaldsvæðið útaf fyrir okkur og hlóðum meira að segja bílinn þar. Fórum í dagsferð til Víkur og til baka á degi 3 (278km)

Vorum ein á tjaldstæðinu og notaði því einn staur til að hlaða á 16A.

Dagur 5: Hvolsvöllur (104 km)

Við skruppum heim til Reykjavíkur til að létta af okkur og settum stefnuna á Varmaland, en það breyttist þar sem góða veðrið virtist vera áfram á Suðurlandinu. Þannig við ákváðum að taka stefnuna þangað og keyrðum til Hvolsvallar til að gista eina nótt.

Dagur 6: Kirkjubæjaklaustur (155 km)

Næsta dag lögðum við af stað að Kirkjubæjarklausturi með stoppi á Sólheimasandi þar sem við hjóluðum að flugbrakinu. Við þurftum að hlaða í Vík og þar þurftum við í fyrsta sinn að bíða eftir hleðslu. Það kom ekki að sök því við vorum ný búin að panta okkur mat þegar CCS tengið losnaði.

Á tjaldstæðinu á Krikjubæjarklaustri var eitt rafmagnstengi laust og við keyptum það. Við hlóðum bílinn líka á tjaldstæðinu með því að tengja hleðlsutækið við fellihýsið og stilltum bílinn á 8A. Þannig fékk hann að malla yfir nóttina og var kominn í 90% þegar við vorum tilbúin daginn eftir.

Hleðslutækið tengið í útitengillinn á fellihýsinu

Dagur 7: Komast burt fyrir storm (379 km)

Ekið til Egilsstaða á einum degi með stoppi í Skaftafelli og gönguferð að Svartafossi. Stoppuðum líka á Jökulsárlóniu þar sem við hlóðum úr 9% í 88%. Við keyrðum síðan til Hafnar en hlóðum fyrst hjá Hotel Jökli, rétt utan við Höfn. Keyrðum svo til Djúpavogs og hlóðum þar fyrir loka sprettinn til Egilsstaða.

Þegar við vorum komin inn Berufjörð stingur bíllinn uppá því að við keyrum Öxi og eftir snöggan samanburð á vegalengdinni með þjóðvegi 1 ákváðum við að slá til. Hafa skal í huga að klukkan var orðin 22:00, allir orðnir þreyttir og það eru mörg ár síðan við keyrðum þennan veg. Skyggni var ekki gott, mikil þoka og við sáum rétt í næstu stiku, en vegurinn var als ekki slæmur.

Á Djúpavogu að hlaða og allir slakir inní bíl

Dagar 8 – 9: Egilsstaðir (0 km)

Á Egilsstöðum ákváðum við að slaka á og notuðum bílinn ekki neitt og hjóluðum allt sem við fórum. Það litla sem við hreyfðum bílinn var til að þrífa hann að utan og notuðum tímann til að hlaða í leiðinni.

Tíminn notaður til að hlaða og þrífa

Dagur 10: Lengsti leggur án hleðslu (275 km + 145 km)

Þennan dag ákváðum við að kíkja í Stuðlagil en gerðum það sem auka ferð fram og til baka til að vera ekki með fellihýsið og hjólin í þeirri ferð. Það lengdi ferðalagið þennan dag um 145 km en var góð ákvörðun. Við fórum því aftur á Egilsstaði eftir að hafa skoðað Stuðlagil og pökkuðum fellihýsinu á meðan bíllinn var í hleðslu. Lögðum svo í hann til Akureyrar með stoppi á Mývatni.

Á Mývatni lentum við í því að bíða eftir bíl (Hyundai Kona) sem var að hlaða, en hann átti bara eftir 16 mín til að hlaða í sett markmið (80%). En þegar bíllinn hafði náð því færði eigandi bílsins markmiðið ofar (í 100%) sem lengdi biðina um 59 mín. Við fórum því á Gamla Bæ til að borða og hlóðum bílinn þar á 11 kW á meðan. Síðan fórum við aftur á hraðhleðslustöðina til að hlaða upp í allavegana 60%.

22kW staur við Gamla Bæinn við Mývatn

Dagar 11 – 12: Hrafnagil & Akureyri (30 km)

Þessa daga héldum við okkur á Hrafnagili í húsi foreldra minna og ferðuðumst lítið nema rétt til Akureyrar í Kjarnaskóg og í búðina.

Hof á Akureyri í bakgrunni rétt fyrir ferðina heim

Dagur 13: Heimferðin (388 km)

Fyrir þessa ferð vorum við búin að reikna það út að við yrðum að stoppa alla vegana tvisvar á leiðinni. Annað hvort Varmahlíð og Staðarskáli, eða Blönduós og Borganes.

Þegar við vorum komin í Skagafjörðin sáum við að hleðslustöðin á Blönduósi var upptekin og ákváðum því að stoppa stutt í Varmahlíð og hlaða (40 mín). Það passaði líka vel uppá kvöldmat í Staðarskála þar sem við urðum að hlaða lengur (1:10:00).

Við vorum á góðum tíma og þegar við vorum að keyra frá Staðarskála komu 4 rafmagnsbílar sem dreifðu sér á hleðslustöðvarnar tvær. Þegar við keyrum frá Borganesi tökum við eftir því að eyðslan hafði verið svo góð (320 Wh/km) og leyfðum við okkur að keyra restina á 90km/klst. Rúllum því í hlað heima hjá okkur með rétt 6% eftir.

Hlaðið í Varmahlíð

Dagur 14: Skila hýsinu (111,4 km)

Síðasta daginn þurftum við að skila fellhýsinu á Selfoss en veðrið var als ekki gott á Hellisheiðinni. Það tók aðeins í en kom ekki á sök þar sem ég var bara einn í bílnum og ekki heldur með hjólin.

Niðurstöður

Þetta ferðalag gekk vonum framar og öll fjölskyldan skemmti sér vel. Við vorum til að mynda farin að spá í vindáttum þegar við áttum langan akstur framundan.

„Verða vindarnir okkur hagstæðir á morgun?“

Við lentum sjaldan í því að bíða eftir hleðslu og ég hefði ekki viljað vera á þeim bílum sem komu á eftir okkur á Jökulsárlóni. Þar þurftum við að hlaða í 1:20:00 (úr 9% í 90%) og það var bíll að bíða alveg góðar 40 mínútur af því. Innviðin þurfa að vera betri og helst með 2 hraðhleðslustöðvar á öllum þeim stöðum sem eru í dag.

Við keyrðum aðalega á 85 km/klst og sáum að 200 km var alveg gerlegt og skipulögðum okkur í krignum það. Höfðum því í huga sundferðir, gönguferðir, hjólaferðir, matartíma eða annað slíkt þegar bíllinn var í hleðslu.

Ferðin í tölum

  • Eknir km: 1.836 km
  • Orka: 580 kWh
  • Skipti í hraðhleðslu: 14 (eitt skipti frítt)
  • Kostnaður við hraðhleðslu: 13.544 kr.
  • Skipti hlaðið á tjaldstæðum: 4 (2x í Selvík, 1x Kirkjubæjarklaustri, 1x Egilsstöðum)
  • Meðal eyðsla: 316 Wh/km
  • Þyngd bíls og farangurs: 2.420 kg (skv. Vigtinni hjá Hvalfjarðargöngum)
  • Þyngd hýsis: 910 kg (skv. Vigtinni hjá Hvalfjarðargöngum)