18 júl

Fyrsta langferðin á rafmagnsbíl

Við fjölskyldan (2x fullorðnir, 2x börn) lögðum af stað frá Reykjavík til Ísafjarðar með einu stoppi hjá ömmu í sveitinni (rétt hjá Króksfjarðarnesi). Við ákváðum að hlaða bílinn í 100% fyrir brottför og það voru 35% eftir þegar við komum til ömmu (ca. hálfa leið). Stefnan var að hlaða bílinn í Hólmavík á hraðhleðslustöð OV (Ísorka) og keyrðum því framhjá hleðslustöðunum í Borganesi og Búðardal.

Á laugardeginum lögðum við af stað til Hólmavíkur í sund og hlóðum bílinn á meðan. Fengum max 42kW og hlóðum 53,8kWh á bílinn (úr 25% í 90%) á 1:09:00 og borguðum fyrir það 2.317 kr.

Vitringurinn í Hólmavík sumarið 2020

Keyrðum síðan 229km til Ísafjarðar og notuðum 49kWh (214Wh/km). Ferðin í heild sinni frá Reykjavík til Ísafjarðar voru 462,6km og voru notaðar 96kWh (208Wh/km). Það er heldur mikið og eina skýringin sem við höfum er veðrir. Það var mikill mótvindur mest alla leiðina. Það verður spennandi að sjá hvernig ferðalagið verður til baka.

Það væri gott ef bíllinn væri kominn með uppfærslu 2020.24 eða nýrra því þá væri hægt að undirbúa batteríið fyrir hraðhleðslu. Þegar ég byrjaði að skrifa þetta sat ég í bílnum og hlóð hann á hraðhleðslustöð ON á Ísafirði og sá það fara í 49kW. Hlóð 52,113kWh á 1:08:00 og borgaði fyrir það 2.364 kr (án afsláttar). Var kominn í 19% og hlóð í 80%.

ps. Það eru miklar vegaframkvæmdir í Hestfirði og allt malbik farið af veginum Ég segði bara guð blessi ceramic coat og PPF á sílsana 😀